Úr einu í annað....

Nú fer að styttast í að barnið komi! Aldurinn orðin réttur til að krúttið geti yfirgefið móður sína og við tekið við því með ást og kærleik. Reyndar er örlítill valkvíði á bænum þar sem við getum valið um stúlku eða pilt. Vona að stúlkan verði fyrir valinu, ekki endilega af því að stúlkan er stúlka heldur eru það litirnir sem prýða hana sem mér finnst svo heillandi! Nú er líka málið að leita sér að góðri ól á kisuna með stærðarinnar bjöllu svo hún fari nú ekki að eta þá fáu fugla sem eru hérna í hverfinu.

Síðustu helgi fórum við í bústað í Heklubyggð, drengirnir voru mjög stressaðir yfir því að Hekla myndi "kjósa"!! En úr því varð nú ekki.

Þar síðastliðna nótt dreymdi mig að ég væri stödd í Vestmannaeyjum, stóð í fjörunni með einhverju fólki sem ég þekkti ekki og átti að grípa þá steina sem myndu svífa úr sjónum. Ég horfði ofan í sjóinn og sá stóran fallegan stein sem mig langaði að taka en það mátti ég ekki. Ég mátti einungis taka þá steina sem kæmu svífandi með sjónum s.s. upp úr sjónum! Það voru tveir litlir steinar sem svifu til mín og lentu báðir á enninu mínu. Allt í einu dimmdi yfir og fólkið sem var með mér sagði mér að fara upp á einhvern pall fyrir framan fjörunna, þegar þangað var komið þá hrundu stór grjót niður úr himninum á fjörunna, þetta þótti öllum eðlilegt nema mér. Rétt á eftir kemur maður til mín og segir að drengirnir mínir séu á annarri eyju og þar sé farið á gjósa, ég verð mjög hrædd og flýti mér þangað til að sækja þá. Þar er gamalt hús alelda og drengirnir hlaupandi í kringum það glaðir og ánægðir, ég kalla í þá skelfingalostin, Daníel snýr sér við og kallar "það er eldgos, fjallið er að gjósa" og hleypur síðan aftur að húsinu þar sem eldslogarnir hafa komið við hverja fjöl. Eftir skamma stund næ ég að fá þá burt og leiði þá til frá húsinu...þeir glaðir  og ánægðir en ég hrædd og óttaslegin.....síðan vaknaði ég...draumurinn búinn....!

Það er svo merkilegt hvað draumarnir mínir geta verið skrítnir en samt svo sterkir að þeir komast ekki úr huga mér, man suma drauma frá því að ég var lítil stelpa. Er samt sem áður engu nær hvað þeir þýða eða merkja.

Reyndar dreymdi mig einu sinni þegar að ég var ófrísk af Brynjari, hús í fallegu umhverfi, amma sem var og er dáin sat í ruggustól út á palli og Dúa frænka kom út úr húsinu en hún hélt á lítilli stúlku í fanginu, ungabarni. Ég skildi aldrei hvað þess draumur merkti, þar sem ég vissi að ég bar dreng undir belti og að Dúa frænka var sprell lifandi. Á fallegasta haustdegi 2006 dó Dúa, ætli þessi draumur hafi merkt að Dúa væri sú sem myndi deyja næst í fjölskyldunni?! Fyrst taldi ég að þetta hefði eitthvað með nafnagift að gera, var búin að velja nafnið Finnur á drenginn, en þegar hann fæddist þá gat ég ekki, sama hvað ég reyndi, að muna þetta einfalda nafn sem ég hafði valið. Það var því ákveðið að hann skyldi fá nafnið Brynjar.

Núna um helgina er Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki, undirbúningurinn tók góðan tíma og verð ég nú að segja að mótshaldarar hafi staðið sig vel. Nema þetta með veðrið, væri ekki frábært ef við fengjum bara úthlutað x mörgum rigningardögum, x mörgum sólardögum og x mörgum rokrassgatdögum?!?! Þá gæti hvert svæði pantað sólardaga sérstaklega fyrir viðburðadaga eins og þessa. Hér með hvet ég þann sem ræður þessari blessaðri veðráttu að skoða málið Wink

Þar til næst....Kissing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband