Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór...

Suma daga langar mig til að skrifa eitthvað fyndið á bloggið en dettur bara ekkert í hug, hugur minn flakkar um í minningunum og reynir að sjá eitthvað skondið sem gæti orðið skemmtileg bloggsaga, en ekkert finnst og ekkert er ritað. Ákvað að láta ekki þetta húmorsleysi stoppa mig í þetta sinn....

Síðustu helgi dvaldi ég í Mývatnssveit með drengjunum mínum hjá fjölskyldunni hans Bjarna. Eitt kvöldið við matarborðið ákvað ég að spyrja drengina mína hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir yrðu stórir. Daníel kvaðst ekki vita það. En Brynjar leit beint í augun mín og sagði "auðvitað ætla ég að vera ég, sama hvað ég vinn við, þá ætla ég samt bara að vera ég" Það er óhætt að segja að ég hafi orðið smá kjaftstopp við þetta gáfulega svar hans. Að sjálfsögðu er þetta rétt hjá honum, maður á ekki að verða að starfi sínu eða frama, maður á bara að vera maður sjálfur. Einfalt en samt stundum svo flókið! Ég hálf skammaðist mín yfir því að hafa spurt þá þessarar spurningar. Af því lífið á að sjálfsögðu ekki að snúast um það hvað maður ætlar að verða þegar maður verður stór. Lífið snýst um hvað maður er í dag, ekki satt?

Lifið heil....



Fullkomin dagur...

Við fórum í berjamó í gær sem er svo sem ekkert merkilegt þar sem að margur íslendingurinn fer á hverju hausti og tínir ber. En það var samt eitthvað svo ljúft að keyra með drengina upp á Þverárfjall, með nesti í poka og tómar krukkur til að fylla. Sólin tók á móti okkur og berin líka. Við vorum minnt á að veturinn er á næsta leyti með kaldri golunni sem náði að smjúga í gegnum okkar varnir, þannig að kuldahrollurinn lék um líkamann. Eftir örlitla stund lægði og sólin sendi okkur geisla sína, heita og notalega. Ég samdi við sólina um að fara hvergi, heldur eyða deginum með okkur í berjamó og það gerði hún. Lyngið var farið að láta á sjá og fallegir haustlitirnir farnir að skarta sínu fegursta. Berin biðu í röðum eftir að vera tínd, svo fallega blá á litinn. Ég hugsaði með mér að vera dugleg að tína þessar auðlindir sem móðir náttúrunnar færir okkur á silfurfati.

Nestið var dregið upp, kakó og dásamlegar veitingar frá Sauðárkróksbakarí. Síðan lágum við hlið við hlið og leyfðum geislum sólarinnar að dansa á okkur, kúrðum saman öll þrjú í lítilli laut og nutum þess að vera saman. Lokuðum augunum og hlustuðum á niðinn frá læknum skammt frá. Ég tók sérstaklega eftir því að engar randaflugur voru á sveimi, ekkert suð sem fær hárin til að rísa.

Þetta var fullkomin dagur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband